Kanil latte

Ég er svo spennt að setja þessa uppskrift inn því ég hef verið að missa mig yfir þessum drykk á hverjum morgni síðustu vikuna.  Ég hef ekki gert hann eins á hverjum degi því ég hef verið að prófa mig áfram með mismunandi hráefni svo bollinn er spennandi á hverjum morgni.

Sú sem ber ábyrgð á þessu nýja æði mínu er Sigurbjörg einkaþjálfari í World class.  Í síðustu viku hittumst við til að undirbúa nammi námskeið sem ég hélt fyrir hópinn hennar.  Hún bauð mér upp á drykk og þar með fór boltinn að rúlla.  Hennar drykkur innihélt reyndar ennþá meira ofurfæði og sérstakt te en ég er búin að einfalda uppskriftina aðeins og ég mun hér gefa ykkur mína uppskrift eins og ég hef gert hann síðustu vikuna.

Hugmyndin er í raun sára einföld og ótrúlegt að mér hafi aldrei dottið í hug að gera þetta.  Ég hef stundum búið til Bulletproof kaffi með því að blanda saman kókosolíu, smjöri og kaffi í blandaranum en aldrei dottið í hug að gera það sama við te. Kannski er Kanil latte ekki besta orðið því það er hvorki kaffi né mjólk í drykknum en mér fannst það styttra og einfaldara en Kryddaður og krassandi vetrardrykkur 😉

kanil-latte

Hráefni:

  • Uppáhellt te, 1 stór bolli,  ég hef notað Star Anis and Chinnamon frá Pukka sem er í algeru uppáhaldi
  • 1 msk kókosolía
  • 1 msk möndlusmjör
  • 1/2 tsk kanill
  • dash af hreinni vanillu, ceyenne pipar og himalayjasalti
  • Sjá hugmyndir hér að neðan af fleira gotteríi sem má bæta við drykkinn.

Aðferð:

  1. Setjið í blandara  og blandið þangað til drykkurinn er flottur og freyðandi
  2. Það eina sem þið þurfið aðeins að hugsa um er hvort blandarinn ykkar þoli heitt vatn.  Ég hef látið teið standa í allt að 10 mín svo það sé ekki alveg sjóðandi heitt.

 

En til að hafa smá tilbreytingu í þessu ætla ég að segja ykkur hverju ég hef bætt saman við og það hefur allt komið ótrúlega vel út. (Samt kannski ekki allt í einu en prófið ykkur áfram til að finna ykkar bragð 🙂 )

 

Að bæta 1 tsk af kakói út í blandarann er ótrúlega gott.

 

Kanil latte

Að bæta einum litlum bita af kakósmjöri út í blandarann gefur líka ótrúlega gott súkkulaðibragð.

Kanil latte

Ég hef bæði prófað að setja út í 1 tsk af Lucuma dufti og eins hef ég prófað að setja 1 tsk af Baobab dufti saman við. Hvoru tveggja mjög gott.  Hvoru tveggja telst undir ofurfæði.

Kanil latte

Ég átti þessar fínu lífrænu olíur, annarsvegar heslihnetuolíu og hinsvegar valhnetuolíu.  Ég prófaði að setja þær í staðinn fyrir kókosolíuna.  Það kom virkilega vel út.

img_0089

Það má bæta við nokkrum dropum af stevíu ef þið viljið fá smá sætu en ég hef alveg sleppt því og finnst það ekki þurfa.

En af hverju er þessi drykkur svona frábær?  Fyrir utan þá staðreynd auðvitað að hann er mjög bragðgóður.

Teið inniheldur góðar jurtir (mismunandi áhrif eftir hvaða te er notað),  kókosolían hefur góð áhrif á meltinguna og húðina, möndlusmjörið inniheldur góða fitu og prótein sem gefa seddu tilfinningu í langan tíma.  Kanillinn hefur góð áhrif á blóðsykurinn, styrkir ónæmiskerfið auk þess að vera hjálpsamur í baráttunni við krónískar sveppasýkingar.  Cayenne piparinn er talin vera ein af bestu lækningajurtum í heiminum, hann eykur brennsluna og dregur úr bólgnum.  Nú er bara að skottast inn í eldhús og byrja að blanda.

Að lokum er hér ein af okkur stöllum sem tekin var á námskeiðinu í nóvember.

Kanil latte

 

Verði ykkur að góðu og það væri gaman að heyra frá ykkur ef þið prófið uppskriftina

Kveðja,

Oddrún

 

 

Bláberjadraumur

Það er farið að kólna úti og ég sakna sumarsins en á móti kemur að það er alltaf ákveðin stemming yfir þessum tíma líka.  Til dæmis stemmingin að fara í berajamó.  Það eru nú samt alls ekki allir sem nenna því, en mér finnst það æði og þvílík berjaspretta í ár.  Ég týndi slatta um síðustu helgi og langar svo að reyna að komast aftur og ná meira áður en þau frjósa.  En börnin á bænum eru því miður búin að næla sér í einhverja kvefpest svo það er spurning hvort það takist.  En í tilefni dagsins er uppskrift af virkilega góðum berjadrykk sem sló í gegn hjá um síðustu helgi.

 

Bláberjadraumur

 

Uppskriftin er í tvö mjög stór glös eða 4 minni.

  • 2  dl bláber (best að hafa frosin svo drykkurinn sé kaldur, eða ný ber og vænan skammt af klökum)
  • 1 dl frosin ananas
  • 1 banani
  • 1 lítið avakadó
  • 5 dl vatn
  • 2 msk möndlusmjör
  • 5 litlar döðlur
  • 1 msk lime safi

Allt sett í blandara og blandað vel.

Hér eru svo nokkar myndir sem fönguðu stemminguna síðustu helgi 🙂

Til hvers að týna í fötu þegar maður getur bara týnt beint í munninn…

Berjamó

Ég splæsti einstöku sinnum í bláberjafötu á uppsprengdu verði í vetur en föturnar komu sér aldeilis vel við týnsluna núna.  Stóru flottu berin týni ég með höndunum og þau fóru í föturnar.  Þau fara út á chia grautin í vetur. Berin sem fara í drykkina í vetur fóru í íssbox og sultuberin í frystipoka.  Já já þetta er allt saman mjög skipulagt 😉

20160827_181756

Þar sem berin eru fleiri og minni finnst mér gott að nota týnu og tek sigtið með mér út í móa þannig að ég geti hreinsað þau á staðnum og sett í box.  Nenni ekki að eiga eftir að hreinsa öll berin þegar heim er komið.

20160827_181804

Ég gleymdi alveg að taka myndir af afrakstrinum, en ég setti pokana á vigtina þegar heim var komið og þetta voru í krignum 12 kg amk. (ég vigtaði 11 kg) en fattaði svo að nokkur box voru annarstaðar.

Eva Rós á kósýgallanum í berjamó, það er ekki alltaf sem veðrið er svona gott og svo dásamlegt að njóta þess út í ystu æsar.

20160827_180147

Gott að hlýja sér í mömmu lopapeysu þegar farið er að kólna.

berjamó

Svo falleg….

IMG_20160827_121717

Ég ætla að deila fleiri berja uppskriftum næstu daga….svo fylgist með!

Gangi ykkur vel að týna 🙂

Dásamlegur kaldur kaffidrykkur

Á ferðalögum erlendis verð ég alltaf að koma við og fá mér að minnsta kosti einn frappuccino á Starbucks.  Ég er alveg laus við löngunina hér heima en sennilega eru það allar utanlandspælingarnar þessa dagana sem komu þessari löngun af stað.  Þar fyrir utan skein sólin hátt á lofti og hitastigið var alveg komið upp í 5 gráður og hægt að fara út á peysunni vhúúúhúúú 🙂   Ég skellti í hollari útgáfu af köldum kaffidrykk og útkomin var dásamleg.  Þetta á eftir að vera gert oft í sumar skal ég segja ykkur.

 

 

frappó

 

Hráefni:

  • 2 dl kalt sterkt kaffi
  • 2 dl vatn
  • 1/2 dl möndlur
  • 4-6 litlar döðlur (magn eftir smekk)
  • nokkrir karamelludropar frá Natali (ca svona 1/2 tsk)
  • 2 dl klaki
  • Rifið súkkulaði ofan á til skrauts (Þarf ekki)

 

Aðferð:

  1. Setjið allt í blandarann og blandið vel.
  2. Það er nauðsynlegt að láta blandarann ganga það lengi að möndlurnar blandist alveg og séu ekki í flygsum í drykknum.
  3. Hellið í stórt glas og drekkið… helst úti í sólinni 🙂

frappó

OK, ég veit það að venjulegur Frappoccino er með þeyttum rjóma, yfirleitt karamellu eða súkkulaðisósu en þessi dugar fínt fyrir mig enda var tilgangurinn að búa til hollan kaffidrykk.   Ég raspaði 85 % súkkulaði yfir til að gera drykkinn aðeins meira “djúsí” og það kom vel út.

Hérna eru karamelludroparnir sem ég notaði, þeir eru lífrænir og án allra aukaefna og alveg einstaklega bragðgóðir:

Poppaðar amaranth nammikúlur

 

frappó

Verði ykkur að góðu 🙂

Ömmu engifergos

Eru ekki allir búnir að fá nóg af Malti og appelsíni undanfarnar vikur ?   Mig langaði að deila með ykkur uppáhalds helgar gosinu okkar.   Það var tengdamamma sem kom okkur upp á þetta í einhverri sumarbústaðarferðinni í sumar og síðan þá er það kallað ömmu-gos.

engifergos

 

Aðferðin er einföld, Engifersafi  og Kristall, blandað til helminga eða eftir smekk, sumir vilja meira sódavatn en aðrir meiri safa en minna sódavatn.  Prófið ykkur áfram 🙂

engifergos

 

Ótrúlega frískandi og gott,

Skora á ykkur að prufa um helgina 🙂

Heitt kakó á köldum haustdögum

Ég bara spyr, er eitthvað betra heldur en heitur kakóbolli eftir góða útiveru þegar fer að kólna svona í veðri ?  Tja, kannski heit kjötsúpa myndi hafa vinninginn.  En allavegna þá elska ég heitt kakó og einnig restin af fjölskyldunni.  Gallinn er sá að kakóblöndurnar sem hægt er að kaupa tilbúnar úti í búð eru ekki með sérstaklega skemmtilega innihaldslýsingu.  Yfirleitt allt of mikill sykur og einnig búið að bæta allskonar aukaefnum saman við.

Heitt kakó

Hér kemur einföld uppskrift af heitu kakói:

  • 1 tsk kakó
  • 2 tsk kókospálmasykur eða hrásykur
  • 2,5 dl soðið vatn
  • örlítið salt og hrein vanilla

Blandið kakói, sykri, salti og vanillu saman í bolla og hellið sjóðandi vatni yfir, hrærið vel og kælið með mjólk að eigin vali….tja, eða þeyttum rjóma !!!

 Sykurlaust eða sykurminna kakó 

Til að útbúa sykurlaust kakó er sniðugt að nota Erýtríol í stað sykursins.   Athugið að Erýtríolið hefur aðeins 70 % af sætleika sykurs og því þurfa teskeiðarnar að vera 3.

En hinsvegar eftir nokkrar prófanir er ég sjálf komin niður á mína uppáhaldsblöndu,  það að blanda erýtríolínu saman við kókospálmasykur (eða hrásykur)  því þar sem erýtríolið er sætt en samt vantar einhvern megin “dýptina” í bragðið.

Þannig að sykurminni útgáfa hjá mér myndi líta svona út:

  • 1 tsk kakó
  • 1 tsk kókospálmasykur eða hrásykur
  • 2 stk Strásæta frá Via Health (Fínmalað Erýtríol)
  • 2,5 dl vatn
  • örlítið salt og hrein vanilla

IMG_1020

 

IMG_1025

Ég hef aðeins verið að fikra mig áfram með að nota Erýtríol þar sem sérfræðingarnir virðast  vera sammála um að það sé góður kostur.  Ég hef sjálf verið hrifnari af döðlum, hlynsýrópi og kókospálmasykri en það er gaman að prufa eitthvað nýtt.  Erýtríolið hækkar ekki blóðsykurinn og er góður kostur fyrir sykursjúka.  Ég hef gert nokkrar tilraunir en ekki þótt allt takast vel en það er spennandi að prufa sig áfram 🙂

 

En þó þetta sé auðvelt  þá eru nú ekki allir sem nenna að finna til kakó, sykur, salt, vanillu í hvert skipti sem á að fá sér kakóbolla…. og þá er góð hugmynd að blanda bara í krukku.  Þetta gerði ég fyrir eiginmanninn sem var að kvarta yfir því að það væri alltof flókið að fá sér heitt kakó.  Hann saknaði þess að eiga ekki bara Swiss Miss í skápnum.  En vandamálin eru til þess að leysa þau og daginn eftir var komin krukka með skýrum leiðbeiningum (mjög miklvægt).

IMG_1022

Þið getið að sjálfsögðu notað hvaða vanillu sem er en þessi er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér

IMG_1023

 

Verði ykkur að góðu 🙂

Heitt kakó

 

 

 

 

 

 

Bleiki sjeikinn

Síðasti dagur október mánaðar og síðasti séns að smella inn einum bleikum drykk áður en mánuðurinn er úti.

Þessi er svo einfaldur og góður, næstum eins og ís sögðu tvær vinkonur í gær 🙂

bleikur sjeik

Hráefni:

  • 3-4 dl frosin ananas (mæli með Crops hann er svo góður, í rauðu pokunum)
  • 3-4 dl frosin jarðaber
  • 2 dl kókosmjólk (þykk)
  • 1/2 avakadó
  • 2 msk möndlusmjör
  • 3-4 dl vatn

 

Aðferð:

Allt sett í blandara og blandað vel saman

 

Góða helgi 🙂