Heilsuátak anyone ??

Hvað ætli margir hafi slegið leitarorðið „detox“, „heilsuátak“ eða önnur heilsutengd orð inn í leitarvafrann hjá sér fyrsta mánuð ársins.  Ég veit allavegna að inboxið mitt er að fyllast af allskonar gylliboðum um tilboð í hin og þessi heilsutengdu prógramm sem öll eiga að það sameiginlegt að gera líf mitt ennþá betra 2020!… og til þess að vera alveg hreinskilin þá viðurkenni að ég var búin að googla 2.janúar  hvernig ég kæmis í toppform á 12 vikum þegar fjölskyldan ætlar í smá frí til Spánar… en batnandi fólki er best að lifa, er það ekki ?

Það er ekkert skrítið að í byrjun árs líði okkur þannig að „nú þurfum við nú aldeilis að gera eitthvað í okkar málum“.  Flestir hafa lifað aðeins hærra en venjulega síðustu vikurnar á árinu með tilheyrandi mat og drykk.  Það er ekkert skrýtið að margir upplifa það að vera útþandir og bólgnir eftir frí.  En lífið snýst um jafnvægi, stundum leyfum við okkur meira en annars,  en aðalmálið er hvað við gerum dags daglega.  Þegar fríið er búið er tími til að taka upp betri siði.  Fylla ísskápinn af fersku grænmeti og hætta að hreinsa upp síðustu konfektmolana sem þér þykja ekki góðir undir venjulegum kringumstæðum !

En er heilsuátak endilega málið ?  Nýtt ár þýðir auðvitað ákveðin tímamót og þar af leiðandi góður tími til að tími til að taka upp betri venjur og setja sér ný markmið.  En hvað liggur að baki, ertu að refsa þér fyrir hegðunina síðustu vikurnar eða langar þig í átak af því að þú vilt virkilega það besta fyrir þig og þarft hvatningu til að koma þér af stað og ná markmiðunum.

Það að hugsa um heilsuna sína ætti ekki að vera áhugamál heldur einfaldlega hluti af lífinu sjálfu.  Það hvernig okkur líður dagsdaglega hefur í raun áhrif á hver við erum.  Hvaða orku við höfum til að takast á við lífið okkar og verkefnin okkar.  Næringin okkar hefur áhrif á hvort við nennum hinu og þessu.  Þannig að okkar dagsdaglega líðan fer mikið eftir því hvernig við hugsum um okkur sjálf.  Fáum við nægan svefn ?  Fáum við góðan svefn?  Nærum við okkur vel ? Erum við að borða nóg, erum við að borða of mikið eða er það sem við borðum næringarríkt og litríkt?   Hreyfum við okkur nóg ?  Hreyfing er lífsnauðsynleg og ætti ekki að vera einhverskonar möguleiki fyrir áhugasama!

Það að taka málin í sínar hendur í byrjun árs og ákveða að hugsa vel um sig á nýju ári þarf ekki endilega að vera það að kaupa nýtt kort í ræktinni, skrá sig í einhverskonar átak og setja markið á það að vera komin í toppform um páskana.

Það getur verið það að byrja strax í dag að taka góðar ákvarðanir til þess að þér líði betur á morgun.

 • Til dæmis það að fara í góða gönguferð (það er reyndar snjóstormur og appelsínugul viðvörun þegar þetta er skrifað og mögulega þegar þú lest þetta).  Ganga er frábær heyfing, þú þarft ekki sérstakan útbúnað, hún kostar ekkert,  það er lítil hætta á meyðslum og hún hefur góð andleg áhrif auk þess að bæta svefn (nema gönguferðin sé tekin seint á kvöldin gæti það haft öfug áhrif) og góð áhrif á meltingu.
 • Það gæti verið það að fara fyrr upp í rúm á kvöldin, ekki með símann heldur góða bók.
 • Það gæti verið það að drekka 2-3 auka glös af vatni yfir daginn.
 • Það gæti verið það að skipta 2 kaffibollum í vinnunni út fyrir te.
 • Það gæti verið það fara í gott bað í stað þess að vafra um í símanum á kvöldin.
 • Það gæti verið það að sleppa verkefnum öðru hverju til að fara á vinkonudeit.

Allt sem við gerum hefur áhrif.  Það ætti ekki að snúast um allt eða ekkert.  Stundum er gott að bara byrja í dag á einhverju einu eða tvennu frekar frekar en að setja háleit markmið sem er ekki víst að við náum.  Þegar þú hefur prófað það í nokkra daga að fá þér daglega gönguferð, fara fyrr upp í rúm eða slaka í baði í stað þess að vafra um í símanum finnur þú hvað það gerir þér gott að þá er auðveldara að setja markmið fyrir næstu daga.  Í upphafi er fínt að setja niður markmið fyrir eina viku í einu þannig verður verkefnið ekki óyfirstíganlegt, erfitt eða fráhrindandi.

Nú hef ég nefnt, hreyfingu, svefn og slökun… en ekki má gleyma mataræðinu.   Besta ráðið er auðvitað það að venja sig á hreinan og næringarríkan mat allt árið.  Þannig að þó svo að við nælum okkur einstöku sinnum í einn eða tvo konfektmola, tertusneið eða bara stingum okkur beina leið ofan í Ben and Jerry’s ísdolluna þá er grunnurinn alltaf góður.  Maturinn sem við borðum ætti að vera hreinn og næringarríkur en ekki verksmiðjuframleiddur pakkamatur.  Við þurfum alvöru mat, nægt prótein, góða fitu, flókin kolvetni og nægar trefjar. Vítamínin fáum við svo í litríku grænmeti.

Ef þig vantar hugmyndir með mataræði þá er nú aldeilis góð hugmynd að skella sér á eitt eða fleiri matreiðslunámskeið.  Allt um það hér:  Námskeið vor 2020 

Gangi ykkkur vel í að hugsa vel um ykkur á hverjum degi 🙂

 

 

 

Matreiðslunámskeið á Selfossi

Undanfarin 2 vetur hef ég komið með nammi námskeið austur fyrir fjall og alltaf hefur komið upp sú umræða hvenær það komi matreiðslunámskeið þar sem við sleppum namminu (svona að mestu leyti) en einbeitum okkur að góðri fæðu sem hentar frá morgni til kvölds.

Nú er komið að því 🙂

Þriðjudaginn næsta (bara eftir 4 daga) verður námskeiðið

Við ætlum að hittast og eiga góðan seinnipart saman þar sem við lærum að búa til allskonar góða rétti sem henta frá morgni til kvölds. Við búum til næringarríkan, einfaldan og bragðgóðan mat sem passar frábærlega vel í sumar.

Þetta námskeið hentar fyrir alla sem vilja bæta meiri næringu inn í daglegt líf og hentar jafnt þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í bættum lífstíl og líka lengra komnum.

Við vinnum á nokkrum stöðvum og það fara allir á allar stöðvar. Hluti af námskeiðinu er þó sýnikennsla. Það á eftir að koma þér á óvart hversu einfalt það getur verið að búa sjálfur til ofurhollt frá grunni.

Matseðillinn er eftirfarandi:

Möndlumjólk
Hamp Chia morgungrautur
Avakadójógúrt með fíkjumúslí
Grænn smoothie og frískandi rauðrófudrykkur sem kemur á óvart
Svartbaunaborgari með hnetusósu og marineruðum rauðlauk
Kínóasalat með möndlukurli
Heimagert frækex
Pestó og hummus
Nærandi múslíkúlur
Súkkulaðikaka sem ekki þarf að baka

Verð: 8900 kr

Skráning hér: https://forms.gle/EQsvks4aMSc5vJBp9

*Athugið að mörg stéttafélög styrkja félagsmenn um allt að helming af námskeiðisgjaldi.

 

Hlakka til að sjá ykkur 🙂

Himnesk hollusta

Það urðu ýmsar breytingar um áramótin hjá Heilsumömmunni.  Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að námskeiðin eru komin með nýtt heimili, fóru úr Spírunni eftir mjög ánægjulegan tíma þar og fluttu yfir í Heilsuborg.

En það er líka fleira sem breyttist og það er ánægjulegt að greina frá því að Heilsumamman og Himnesk hollusta hafið farið í samstarf saman.  Himnesk hollusta býður upp á lífrænar vörur á mjög góðu verði.  Einnig er lítið mál að finna þær í Krónunni, Nettó og Fjarðarkaup (og sennilega víðar),  þær eru mjög bragðgóðar og standa á allan hátt algerlega undir væntingum.   Ég er mjög ánægð með að nota þessar vörur framvegis á námskeiðunum mínum og í eldhúsinu heima.

Hér eru nokkrar myndir sem ég smellti af á síðasta námskeiði og þar sjáið þið bæði vörurnar í notkun en einnig fáið þið smá innsýn inn í hvað við vorum að brasa.

 

 

 

 

Ég smellti einnig af nokkrum myndum á síðasta námskeiðinu í Spírunni:

 

 

 

Og 1/10  hluti af afrakstrinum:

 

Yfirleitt er það mikill hasar á námskeiðunum að ég er ekki nógu dugleg að taka myndir – bara af því að ég er á fullu að aðstoða og græja og gera og áður en ég veit af eru diskarnir tómir og fókið farið.

Hér eru svo upplýsingar um næstu námskeið:  https://heilsuborg.is/heilsumamman/

Það eru allskonar skemmtileg námskeið framundan 😉

 

Njótið dagsins

 

REKO – ný leið til að versla beint af bændum

Ef þið hafið ekki enn heyrt um REKO þá mæli ég með því að bæta úr því hið snarasta.  REKO  er glænýtt fyrirkomulag hér á landi.  Þetta snýst um að stytta bilið á milli bænda og neytenda og einfalda verslun beint frá býli.   Hér er grein sem útskýrir þetta betur en í stuttu máli virkar þetta svona:

Þú skráir þig í REKO hóp á facebook, Það eru komnir 3 hópar á Facebook núna:  REKO Vesturland, REKO Reykjavík og REKO Austurland.  Einu sinni í mánuði (eða það er planið skilst mér) er búinn til viðburður um afhendingu.   Þar inni skrá seljendur hvað er í boði, hvað það kostar og hvenær þarf að vera búin að panta.  Þar geturðu pantað eða sent tölvupóst á netfang seljanda.  Þú gengur svo frá greiðslu áður en kemur að afhendingu.  Þegar kemur að afhendingu mætir þú á svæðið og sækir þínar vörur.

Ég sá þetta auglýst í síðustu viku og fannst þetta svo sniðugt að ég varð að vera með í fyrstu afhendingu og sjá hvernig þetta færi fram og en sérstaklega var ég auðvitað spennt fyrir þeim vörum sem voru í boði.

Það sem ég keypti í þessari fyrstu tilraun voru 2 heilir kjúklingar frá Litlu gulu hænunni og 2 kg af kjúklingabringum.   En fyrir þá sem ekki vita eru kjúklingarnir frá Litlu gulu hænunni aldir á óerfðabreyttu fóðri ásamt heilu byggi og grænmeti fyrir utan það að hafa gott pláss og spóka sig úti þegar veðrið er gott.  En einnig nældi ég mér í 3 kg af nautahakki frá Hálsi í Kjós.  Kjötið er af Galloway/Angus nautgripum sem eru 100 % grasfóðraðir.   Það var ótrúlega margt spennandi í boði en ég ákvað að byrja á þessu.  Mér fannst verðið gott og bara örlítið dýrara heldur en venjulegur kjúklingur (alin á erfðabreyttu soja og maís eins og flestir kjúklingar) og venjulegt nautahakk.

Afhendingin í Reykjavík fór fram á bílaplaninu hjá Krónunni, Lindum.

Nú hlakka ég bara til að elda eitthvað gott úr þessu úrvals hráefni 🙂

Reko

 

Sjáumst vonandi á næstu REKÓ afhendingu 🙂

 

 

 

Veganúar 2016

Það hefur mikið verið rætt um veganúar undanfarið, orðið er sett saman úr Vegan og Janúar og er fyrirmyndin af þessu átaki erlend, Veganuary.  Þetta er annað árið sem Veganúar er haldið á Íslandi.  Eins og segir á heimasíðu Veganúar er „markmið veganúar er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti vegan fæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd“.  Heilsumamman ætlar að taka þátt í Veganúar 2016 og því verða allar uppskriftir vegan sem munu birtast hér á síðunni í Janúar.

Ég er sjálf ekki vegan nema reglulega nokkrar vikur á ári þegar ég fer á 100 % hreint fæði og aldrei tekist lengur en 2 vikur en núna í Janúar ætla ég að ná 3 vikum 100 % vegan.  Ég var nefnilega pínu sein í gang á þessu nýja ári og er ekki byrjuð alveg 100 % ennþá.  Ég hef verið með mest allt vegan en svo allt í einu er ég komin á kaffihús með vinkonu og búin að panta heitt kakó með rjóma…og bara „Já alveg rétt“  eða „Ubbbsss“ !!!  Þannig að þessi fyrsta vika Janúar er búin að vera svona 90 % Vegan.  En helgin verður notuð til undirbúnings og ég byrja 100 % á mánudaginn.

Ég nota mjög lítið mjólkurvörur og er ekki með mikið kjöt en nota aftur á móti töluvert af eggjum og ég veit að ég á eftir að sakna þeirra mikið.  Ég hef samt alltaf svolítið gaman af því að fara aðeins út fyrir þægindahringinn og oft uppgvötar maður eitthvað alveg frábært í svoleiðis tilraunum.

Þessar 3 vikur ætla ég líka að vera dugleg að setja myndir á Instagramið af girnilegum vegan mat.

Hlakka til að vera í þessu með ykkur 🙂

 

 

 

 

 

 

Vikumatseðill 1.vikan í febrúar

Jæja, eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er Sparnaðaráskorun febrúar komin í gang hjá frúnni og þess vegna er ég svona súper skipulögð og búin að gera vikumatseðil fyrir fyrstu vikuna.

Mánudagur:  Ég reyni yfirleitt að hafa grænmetisrétt á mánudögum (undir áhrifum meatless monday í Ameríkunni).  Hnetubuff ásamt soðnu kínóa og apríkósuchutney (af því að ég á það síðan í síðustu viku)  …veit ekki alveg hvort allir í fjölskyldunni verði hamingjusamir en það kemur í ljós.  Spurning að bjóða upp á að setja buffin í brauð og búa til Sollu-kokteilsósu (Sollu-mæjónes og Sollu-tómatsósa ásamt smá paprikukryddi) með fyrir yngri kynslóðina svo kvartkórinn verði ekki of hár 😉

hnetubuff

Þriðjudagur: þriðjudagar eru orðnir hálfgerðir eggjadagar… það hefur bara þróast þannig,  ýmist ommiletta eða spæld egg.  Það er mjög vinsælt að skera niður langsum gúrku, papriku og gulrætur og borða með eða jafnvel nota kálblöð og rúlla utan um eggin.

IMG_2947

Miðvikudagur: þar sem það þarf að skutla einni dömu í dans og annarri í fimleika á miðvikudögum er ekki í boði að vera með flókna eldamennsku.  Grjónagrautur og lifrapylsa er á planinu.  Lifrapylsan telst nú sennilega seint vera mikil hollusta en börnin elska hana og grjónagrauturinn er búin til úr hýðishrísgrjónum og heimatilbúnni möndlumjólk.  Ég ætla að njóta þess að fá mér afgang frá mánudeginum og svo kannski smá grjónagraut í eftirmat 😉

IMG_3578

Fimmtudagur: fimmtudagar eru súpudagar, oft naglasúpa þar sem hreinsað er úr grænmetisskúffunni fyrir helgina.  Stundum á ég í frysti fisk, lambakjöt eða kjúkling til að gera hana aðeins matarmeiri.  Stefnan er sett á stafasúpu í þessari viku og planið að baka brauðbollur með henni og svo er voða vinsælt að sjóða egg og setja út í.

stafasúpa

Föstudagur: föstudagar eru fjölskyldukvöld, undantekningarlaust eitthvað gott í matinn og bíókvöld með gríslingunum.  Þar sem vikan er frekar létt er yfirleitt komin tími á kjötmeti að mati fjölskyldunnar.  Mexíkómatur er alltaf vinsæll, hakk, tortillur eða skeljar eða jafnvel bara nota sallatblað til að vefja, fullt fullt af grænmeti, guatamole, heimatilbúið salsa ofl.   Ég geri það stundum að sleppa hakkinu en krydda svartar baunir eða aduki baunir eins og hakkið og að mínu mati kemur það algerlega í staðinn fyrir kjötið (ef þið viljið draga úr því) eða blanda því saman 😉   Ég hvet ykkur til að skoða innihaldslýsingar á tilbúnum tacokryddum því þau innihalda oft bæði mikinn sykur og msg.  Það er miklu auðveldara að krydda sjálfur hakkið með góðum og hreinum kryddum, t.d. papriku, cumin og cajun bbq kryddið frá Pottagöldrum er rosalega gott.

IMG_2953

Laugardagur: PIzza,  okkur finnst ágætt að gera stundum pizzu á laugardögum því það er meiri tími í dúllerí en á föstudeginum.  Ég er oftast á fullu seinnipartinn að gera fínt fyrir helgina og því ágætt að elda eitthvað fljótlegra en pizzu.   Þar sem ég er allt í einu farin að blása út af heimagerða speltbotninum er ég farin að búa til dásamlega glúteinlausa útgáfu af pizzu sem ég alveg elska og maginn minn líka 😉

Sunnudagur:  Kornflexkjúllinn er fínasti sunnudagsmatur og allir virkilega sáttir.  Sætar kartöflur með og niðurskorið ferskt grænmeti.

IMG_4312

 

Ég ætla ekki að skrifa niður allar máltíðir vikunnar en fyrir morgunverð áætla ég að þurfa að versla:

 • 1 Cheerios pakki ( því miður eru ekki allir að elska Chia grautinn jafn mikið og ég)
 • Haframjólk og kókosmjólk
 • Egg (1x í viku geri ég eggjabrauð eða ommilettu í morgunverð, yfirleitt á fimmtudögum eða föstudögum)
 • chia fræ
 • Möndlur (heimagerða möndlumjólkin er nauðsynleg fyrir chia grautinn)
 • Frosin hindber
 • epli
 • A.m.k. 1 poka af grænkáli, engifer, epli og frosin ananas eða mangó fyrir græna morgunsjeikinn

Stelpurnar taka með sér nesti fyrir ávaxta/grænmetis hressingu í skólanum

 • gulrætur
 • epli
 • gul melóna
 • perur
 • rauð paprika

Seinniparts hressingin samanstendur yfirleitt af hristing og kannski 1 brauðsneið, eða eplum og hnetusmjöri, eða einhverju öðru tilfallandi.  Stundum hef ég bakað bananabrauð eða amerískar pönnukökur ef gestir eru í heimsókn eða eitthvað sérstakt stendur til.

 • Kókosmjólk (1-2 fernur)
 • Frosið mangó
 • Avakadó
 • Epli
 • möndlusmjör
 • hnetusmjör
 • Bananar
 • gróft spelt (ef ég skyldi baka eitthvað)

Hádegismaturinn minn:

Samanstendur yfirleitt af afgöngum, ef ég á enga afganga er það yfirleitt salat með hinu og þessu.

Það sem ég kaupi fyrir þessa viku er:

 • kál
 • spírur frá Eco spíra
 • vorlaukur
 • pekan hnetur
 • egg

Jæja, nú er planið komið á hreint en nú er spurning hvernig gengur að halda upphæðinni innan marka 🙂