Sigraðu sykurpúkann með hollri og góðri næringu – Grindavík

Þá erum við stöllurnar aftur farnar á stjá, ég og Steinunn Aðalsteins, heilsumarkþjálfi hjá Heilsuhótelinu.  Okkur finnst bara svo gaman að kenna öðrum að búa til góðan og fallegan mat sem lætur okkur líða vel 🙂  Næsta mál á dagskrá er skemmtilegt námskeið sem við ætlum að vera með í Grindavík næsta mánudag, 3. febrúar kl. 18.00

Við ætlum að ræða ýmislegt, allt frá áhrif sykurneyslu á hormónastarfsemi, mikilvægi góðs morgunverðar, hvernig hægt er að komast í gegnum daginn án sykurs en líka hvernig hægt er að bæta mataræðið smátt og smátt með góðum venjum.

Við ætlum að búa til hressandi grænan sjeik, dásamlegan súkkulaðisjeik, kínóa salat, gott millimál, hráköku og ofursúkkulaði svo engin ætti að fara svangur heim.

Þú færð fullt af uppskriftum með þér heim til að byrja að æfa þig strax að búa til mat sem eykur vellíðan og hefur góð áhrif á blóðsykurinn, skapsveiflur og þyngdarstjórnun.

Rúsínan í pysluendanum er sú að allir fá að útbúa morgungraut í krukku og taka með sér heim 🙂

krukugrautur

Verðið er: 9900 kr ( en athugið að stéttafélög niðurgreiða hluta)

Skráning fer í gegnum Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum: mss@mss.is

Hlökkum til að eiga ánægjulega kvöldstund með Grindvíkingum og öðrum suðurnesjafólki 🙂

Karamellupopp

Hér kemur skothelld uppskrift fyrir næsta bíókvöld.  Hrikalega gott og miklu hollara en bland í poka 🙂

Hér á bæ hefur oft verið gert súkkulaðipopp sem er svona spari popp útgáfa en um daginn gerðum við karamellupopp í fyrsta skipti.  Það má líka gera eina skál af hvoru ef þið getið ekki ákveðið ykkur 😉

 Karamellupopp

Hráefni:

 • Popp – okkur finnst best að poppa það í kókosolíu og salta með himalayjasalti
 • 5 msk smjör/kókosolía
 • 5 msk hlynsýróp
 • 5 msk rjómi/kókosmjólk (þykki hlutinn)

Aðferð:

 1. Poppið poppið.
 2. Setjið allt hráefnið fyrir karamelluna í pott, leyfið því að malla þangað til karamellan er orðin svolítið seig.  Þið sjáið það að á því að það kemur greinilegt far eftir sleifina í botninum á pottinum.
 3. Hellið karamellunni yfir poppið, mér finnst ágætt að setja það í ofnskúffu meðan það er að kólna og svo má smella því í stóra skál þegar karamellan hefur harðnað alveg.

Karamellupopp

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Smákökusamkeppni og uppáhalds smákökuuppskriftin

Á dögunum efndu Heilsuréttir fjölskyldunnar og Bókafélagið til uppskriftasamkeppni og leituðu að bestu hollu smákökunni.   Ég hef aldrei tekið þátt í neinni svona keppni en að þessu sinni langaði mig að vera með 🙂

Það var ekkert leiðinlegt að lenda í þriðja sæti og fá þessi flottu verðlaun 🙂

verðlaun

Uppskriftin sem ég fékk verðlaun fyrir er búin að vera í uppáhaldi í mörg ár.  Fyrirmyndin kemur úr uppskriftarbók sem var til heima og ég féll fyrir þeim kökum fyrir uþb. 20 árum síðan, bara unglingur.  Heima voru 4 bræður sem var mjög gaman að baka fyrir og þessar kökur mæltust alltaf sérstaklega vel fyrir hjá þeim, við skulum segja að það hafi lítið reynt á geymsluþolið 😉   En eftir að hafa verið í reglulegri tilraunastarfsemi síðustu 2 árin er komin töluvert hollari útgáfa af þessum yndislegu kökum.

Verði ykkur að góðu 🙂

Hafrakókoskaka með súkkulaði

Hér kemur þessi dásemdar uppskrift:

Hráefni:

 • 100 g kókosolía
 • 3 dl haframjöl
 • 1 1/2 dl kókosmjöl
 • 1/2 dl hrásykur (hér má nota kókospálmasykur en þær verða töluvert dekkri útlits)
 • 10 dropar stevia (Original frá Via Health)
 • 1 egg
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 msk gróft spelt
 • 100 g 70 % súkkulaði

Aðferð:

 1. Bræðið kókosolíu við vægan  hita.
 2. Blandið öllu hráefninu saman og hellið kókosolíunni yfir.
 3. Blandið öllu vel saman og setjið deig á plötu með teskeið.
 4. Bakið við 190°c í 8 mín (ath. ekki blástur) Þær eru mjúkar þegar þær koma úr ofninum en harðna þegar þær kólna.
 5. Þegar kökurnar hafa kólnað penslið þið bræddu súkkulaði undir botninn.
 6. Best að geyma þessar kökur í frysti og eru langbestar beint úr frystinum.

Þessi uppskrift gefur uþb. 30 kökur

Til þess að hafa þessa uppskrift glúteinlausa mætti nota glúteinlaust mjöl í staðinn fyrir gróft spelt og glúteinlaust haframjöl.

Hér er fréttin en þar er gefin upp uppskriftin af sigur kökunni, mmmmm hlakka til að prufa hana og hlakka til að fá uppskriftina sem lenti í öðru sæti 🙂

Fiski „naggar“

Alveg brilliant hugmynd.  Fljótlegt og gott.  Ég er alltaf að reyna að finna fljótlegar, góðar og einfaldar fiski uppskriftir sem henta hversdags.  Þessi kom frá The Earth diet.

IMG_5952

Hráefni:

 • 1 kg þorskur (eða annar fiskur)
 • 2,5 dl möndlumjöl
 • 2 egg
 • krydd að eigin vali, ég hef prufað að krydda með a) 1 tsk  túrmerik og 1 tsk salti b)  1 msk af grænmetiskrafti c)  m msk af Ítölsku panini kryddi frá pottagöldrum.

Aðferð:

 1. Setjið egg í skál og möndlumjölið (ásamt kryddinu) í aðra.
 2. Skerið fiskinn í bita, veltið upp úr eggjunum og svo mjölinu.
 3. Raðið á bökunarplötu og bakið vIð 200°C  í 10-15 mín (fer eftir ofnum og hversu þykkir bitarnir eru, fylgist vel með því það er ekki gott að hafa fiskinn ofeldaðan, þurran og óspennandi.)

fiskinaggar

IMG_5951

Ég hafði með þessu gamaldags hrásalat:

IMG_5957

Hráefni:

 • 1/2 haus af hvítkáli
 • 3-4 gulrætur
 • 1/2 rauð paprika
 • 1/2 púrra

Sósan yfir salatið:

 • safi úr 1 appelsínu
 • 3 msk majónes (ég notaði frá Sollu)
 • 1 msk hlynsýróp
 • Smá salt

„Ostur“ á ostalausa pizza

Einn af aðal höfuðverknum við það að vera með mjólkuróþol er pizzur!  Osturinn er yfirleitt frekar stór  hluti af þeirri máltíð.  En þessi hugmynd er alger snilld 🙂  Ég sá þessa hugmynd á mjólkurlausa spjallinu sem ég er í á Facebook og prufaði loksins um daginn.  Þetta kom ótrúlega vel út og mjólkuróþolsgemsinn minn er alveg í skýjunum með þessa nýju útfærslu

Egg í staðinn fyrir ost !

ostalaus pizza

Yfir eina 16 tommu pizzu þarf ca 1,5 egg, hrært vel saman, jafnvel kryddað aðeins og hellt yfir pizzuna þegar það eru ca. 5 mín eftir af bökunartímanum.

Alger snilld 🙂

Mangó-karrý fiskur

Hér kemur ótrúlega einfaldur, fljótlegur og góður fiskréttur.  Ég hef í mörg ár eldað kjúkling í þessari sósu en einhverra hluta vegna hefur mér aldrei dottið í hug að nota fisk.  Þessi hefur slegið þvílíkt í gegn hjá fjölskyldunni.  Ég elda hann bara á pönnunni og þar með er þetta orðið skyndiréttur sem kemur sér oft vel.

IMG_4956

Hráefni:

 • 800 gr Fiskur (ég nota oftast þorsk)
 • 2 dl þykk Kókosmjólk (þessi litla bleika í fernunum)  og 2 dl vatn eða 4 dl kókosmjólk úr dós
 • 4 msk mangó chutney
 • 1 tsk kókosolía
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk túrmerik
 • 1 tsk karrý
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Fersk steinselja, ef þið eigið hana til (strá yfir í lokin)

Aðferð:

 1. Hitið pönnu og bræðið olíu, setjið hvítlaukin á, ásamt kryddunum í örstutta stund (hvítlaukurinn má alls ekki brenna)
 2. Bætið kókosmjólkinni út í ásamt mangómaukinu og grænmetiskraftinum.
 3. Setjið fiskinn í sósuna, setjið lokið á og eldið hann í ca 4 – 5 mín.

Svo fljótlegt og þægilegt og alltaf gott mál að elda eitthvað sem börnin elska.  Mangó Chutney telst nú samt varla vera heilsuvara enda inniheldur það ca. 40 % sykur, en það er bara svo ægilega gott…málið er nefnilega það, ég þori varla að viðurkenna það en mér finnst fiskur ekkert ægilega góður, eða sko, hann er alveg góður en ég er aldrei sérstaklega spennt fyrir að elda fisk.  Mér finnst eins og mér eigi að þykja hann alveg rosalega góður af því að hann er svo hollur.   En af því að börnin elska öll fisk þá elda ég hann alltaf allavegna 1x í viku.  Og svo við komum aftur að mangó chutney-inu þá get ég bara vel hugsað mér að elda þennan fisk því mangómaukið gerir þennan rétt svo góðan. Þannig að ég tek bara Mary Poppins á þetta… „bara matskeið af sykri gerir meðalið svo gott“ 😉

Njótið dagsins og takk fyrir að fylgjast með