Lok febrúar

JæJa síðasta vikan búin í sparnaðarátakinu….

Vikan gekk svona aldeilis glimmrandi vel,  það var ýmislegt látið vanta en kom þó ekki að sök en þrátt fyrir það var ég örlítið yfir takmarkinu…bara smá!   Það var auðvelt að spara um helgina því við hjónin skelltum okkur á æðislega árshátíð og sendum börnin bara í önnur hús að borða á meðan 🙂 hihi

Ein ástæðan fyrir því að það var erfitt að halda kostnaðinum niðri er sú að ég er á kafi að útbúa nýtt hefti sem ég mun gefa út rafrænt eftir örfáar vikur.  Stútfullt af barnvænum mat 🙂   Þetta hefti er gert í tengslum við námskeiðið sem ég er með núna á fimmtudaginn í Lifandi Markaði og vonandi verða fleiri slík námskeið á næstunni.  Það má búast við því að allar uppskriftirnar í þessu hefti verði mjög hagkvæmar 😉

 • Sunnudagur, Bónus: 6269.-
 • Ecospíra, spírur: 1100.-
 • Mánudagur, Bónus: 8970.-
 • Þriðjudagur, Bónus: 4936.-
 • Miðvikudagur, Krónan: 2158.-
 • Miðvikudagur, Fjarðarkaup: 2306.-
 • Fimmtudagur, Bónus: 2119.-

Samtals: 27.858.-

Ég keypti í fyrsta skipti spírur beint frá Ecospíra í vikunni, og svo aftur í þessari viku… og ég get sagt ykkur það að þið eigið eftir að heyra meira um það síðar… bara eitt um það að segja í bili: Alger snilld 🙂

 

Vikumatseðill – vika 4 í febrúar

Jæja, nú reynir á útsjónarsemi og skipulag í þessari viku.  Það hefur gengið erfiðlega að vera undir hámarkinu svo núna er síðasti séns að redda málunum 😉  Þetta virðist ætla að verða önnur veikindavika og svo er vetrarfrí í skólanum í lok vikunnar.  Mér sýnist á ástandinu á mannskapnum að það verði bara spilað, púslað, haft kósý og örugglega bakað eitthvað gott.  Hápunktur vikunnar er um helgina þar sem vinnustaðurinn minn heldur Árshátíð út á landi og verður það nú aldeilis stuð fyrir hjónakornin að komast aðeins frá börnum og búi og slaka á og njóta lífsins í sveitasælunni.

Mánudagur –   Ljúffeng linsubaunasúpa og spelt bollur.   Einn sá ódýrasti matur sem finnst í heiminum.  Nýbakaðar spelt bollur lyfta svo máltíðinni heilmikið upp.

Linsubaunasúpa

Þriðjudagur –  Spæld egg, ristað brauð og grænmeti.  Einfalt og fljótlegt á þriðjudegi.  Brauðið kaupi ég í Kökulist, Firðinum, svo ótrúlega gott súrdeigs spelt brauð sem er það besta sem ég hef fundið.

Miðvikudagur –  Taco súpa.   Þessi uppskrift er búin að vera lengi á leiðinni á vefinn.  Krakkarnir elska þessa súpu.  Hún er snilld ef það er til smá afgangur af hakki (uþb. 3 dl) Tek stundum hakk afgang og set í frysti til að eiga í þessa súpu.

IMG_1884

Með súpunni mæli ég með þessu lífræna nachosi (ekki búin til úr erfðabreyttu korni)  sem er alveg svakalega gott og fæst í heilsuhillum víðsvegar um bæinn, ég hef keypt það í Nettó.

IMG_1882

Fimmtudagur –  Grjónagrautur.  Hýðisgrjónagrauturinn með heimagerðu möndlumjólkinni.

IMG_3578

Föstudagur –  Kalkúnaborgarar í heimgerðu hamborgarabrauði.  Eftir tiltekt í frystinum fann ég pakka af kalkúnahakki sem ég keypti í Fjarðarkaup um daginn.  Mjög ódýr matur.  Ég rakst á svo girnilega uppskrift af borgurum og heimagerðu hamborgarabrauði í Heilsuréttum fjölskyldunnar.  Ég hlakka mikið til að prófa þessa uppskrift.  Sætar franskar kartöflur með og væntanlega sollu kokteilsósa fyrir yngri deildina líka 😉

Laugardagur –  Árshátíð  og því þarf ekkert að hugsa um mat þennan daginn.

Sunnudagur –  Lax með mangósósu og sætum kartöflum.  Á sunnudaginn er komin nýr mánuður og ég ætla að fagna því með því að hafa lax í matinn. Lúxus sem ég kom ekki inn í skipulagið í febrúar 😉

IMG_8154

Í frystinum eru til jarðaber og bláber fyrir drykki,  spurning hvort ég komist í fjarðarkaup til að kaupa frosin ananas eða mangó.  Annars verða bara epli í græna góða á morgnanna.

Þar sem ég kem til með að vera svolítið heima þessa vikuna ætla ég að nota tækifærið og nota það sem til er til að baka og búa til sjálf.  Í dag bjó ég til dæmis til kanil kex, bananabrauð og Nutella hvað? súkkulaðihnetusmjör, það er ekki hægt að kvarta yfir því 🙂   Oft leynist hitt og þetta í skúffunum og hægt að töfra fram dásamlegar veitingar 🙂

Vonandi verður vikan sem best hjá ykkur öllum <3

 

 

 

 

Vika 3 – staðan

Jæja, vika 3 búin…  þetta verður stutt yfirferð þar sem litli sjúklingurinn á alveg svakalega bágt og þarf að fá mömmukúr um leið og þetta er komið á prent.  Hún finnur svo til, borðar nánast ekkert og á alveg svakalega bágt, núna eru komnir 7 dagar og hver dagur öðrum verri, vonandi fer þetta að fara uppá við.

Það gekk nokkuð vel í þessari viku, líka miðað við að það var aðeins auka álag á heimilinu en ég fór örlítið pínu smá yfir 25 þús kallinn.  En hvað haldið þið, ég fór á hverjum degi í búð, eða svona næstum því,  ég held að þetta hafi eitthvað með það að gera að ég er að reyna að kaupa sem minnst og það þýðir að það vantar alltaf eitthvað !

sunnudagur, Bónus: 9.838 (ég naði ekki að kaupa allt sem þurfti þar sem ég tók þá snilldarákvörðun að fara labbandi í búðina og þurfti því að geyma nokkra hluti til síðari daga)

sunnudagur, Hagkaup: 2.140

mánudagur, Fjarðarkaup 2228 (lambagúllasið og eitthvað smá grænmeti)

mánudagur, Bónus: 1059

Þriðjudagur, Bónus: 4478 (allt það sem “gleymdist” að kaupa á sunnudaginn)

miðvikudagur, Krónan: 2640.-  (Lét undan þrýstingi og keypti grillaðan tilbúin kjúkling )

fimmtudagur, Bónus: 3.142- (vantaði eitthvað fleira mjúkt fyrir sjúklinginn sem ekki var hægt að fresta, bananar, egg og svo rataði auðvitað eitthvað fleira ofan í körfuna að venju)

föstudagur: Bónus: 1700 (?) grænmeti og eitt dökkt súkkulaði fyrir föstudagskvöldið.

26.170.-

Við höfðum það bara voða gott matarlega þessa viku, við foreldarnir vorum þreytt  á því að fá ekki nægan nætursvefn og það skilaði sér í matarvalinu, lambagúllas, grillaður kjúklingur, lambalæri osv.fr.  eitthvað svona kraftmikið og orkugefandi.    Ég fann það hinsvegar alveg að ég var að spara og það kom niður á vali hvað varðar hollustu  en þetta var samt alveg innan skynsemismarka, drykkur á hverjum degi og ferskt grænmeti daglega 🙂   Saknaði þess samt að kaupa ekki spírur, meiri frosin ananas, lax eða fisk og hefði viljað kaupa meira kál og jafnvel einhverjar skemmtilega ávexti, t.d. mangó og melónu.  En það flokkast víst undir lúxus 😉

Jæja, þá er það bara síðasta vikan, það verður spennandi að sjá hvernig hún tekst til 🙂

 

 

 

Febrúar vika 3

Þá hefst þriðja vikan í sparnaðarátakinu, nú þurftum við að fara að spýta í lófana,  bretta upp ermarnar og allt það til að ná takmarkinu en þessi vika verður sennilega smá áskorun því elsta skvísan er að fara í hálskirtlatöku á þriðjudaginn og verður vikan því heilmikið pússluspil varðandi vinnu og annað skipulag.   Litla krúttið er með lægsta sársaukastuðul sem ég hef séð og það er sko ekkert grín,  það fer sko allt á hvolf við það eitt að fá flís eða bara finna örlítið til í fætinum þannig að ég bý mig undir svakalega viku sem yfirhjúkrunarkona á heimilinu.  Við fórum í gær og keyptum nokkrar dollur af mjólkurlausum ís og svo þarf að kaupa slatta af kókosmjólk, Sollu-mangósafa og allskonar ísgerðarefni fyrir heimatilbúna framleiðslu.  Ég hugsa að ég sé strax komin í mínus á fyrsta degi.  Hún fékk að velja kvöldmatinn í gær án allra athugasemda þar sem hún fær eitthvað lítið að borða á næstunni og við vorkennum henni öll svo ótrúlega mikið en ég ætla sko ekki að segja ykkur hvað hún valdi, það er sko ekki birtingarhæft hér 😉

Mánudagur:  Lambagúllasið sem ég eldaði ekki á föstudaginn.  Grænmeti og hýðishrísgrjón með.  (Þarna kemst upp um mig, splæsti í Piccolo tómata, ég bara stóðst ekki freistinguna.   Miðstelpan mín sagði líka, mamma keyptirðu nammi í búðinni 😉

lambagúllas

 

Þriðjudagur: Ætli ommiletta verði ekki bara tilvalin á þessum þriðjudegi.  Svo einföld eldamennska og svo bara fullt af grænmeti með.

MIðvikudagur: Ég ætla að færa fimmtudagssúpuna yfir á miðvikudaginn og afgangurinn af lambagúllasinu frá mánudeginum mun breytast í kjötsúpu.  Svo einfalt og þægilegt að nota afganga.   Það má nota flesta afgangsrétti í súpur.  Bara bæta við smá vatni, krafti, kannski flösku af maukuðum tómötum og smá salti og pipar.

Fimmtudagur: Linsubauna curry gefur góða orku sem okkur á eflaust ekki eftir að veita af, alls ekki flókin matseld.

Föstudagur:  Mig grunar að við eigum eftir að verða þreytt þennan föstudaginn og stefnan því sett á kjúklingatortillur.

kjúklingavefja

Laugardagur:

Í frystinum leynist eitt lambalæri sem verður tilvalið að kippa út fyrir helgina.  Lambalæri í ofninn, kartöflur á grillið (ef það verður ekki stórhríð), gott salat og sósa.  Einfalt og gott.

Sunnudagur:

Spurning um að gera aðra tilraun til að elda girnilega hnetusmjörskjúklingaréttinn sem ég ætlaði að elda í síðustu viku en náði ekki.  Hann lítur svo hrikalega girnilega út 🙂  Það fer svona eftir stöðunni, kannski verður bara grjónagrautur 😉

 

Ég veit að sjúklingurinn má ekki borða neitt heitt og verður sennilega bara á einhverju algeru sérfæði alla vikuna.  Skilst að ís og hristingar séu svona það besta, en ef einhver er með góðar hugmyndir og reynslu af mat sem er kaldur og mjúkur (ekki mjólkurvörur samt) þá væri mjög gott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur 🙂

Á innkaupalistanum fyrir þessa viku mun vera mikið af hlutum til að búa til ís og næringarríka hristinga (gott fyrir kroppinn en ekki gott fyrir budduna):

 • Hrein kókosmjólk
 • Kasjúhnetur
 • Bananar
 • Avakadó
 • kókosvatn
 • kókosolía

Auðvitað ávextir og grænmeti fyrir hina skólastelpuna og okkur hin:

 • Epli
 • Appelsínur
 • gulrætur
 • gúrkur

Sem betur fer er nóg til af chia fræjum, möndlum, möndlusmjöri, frosnum ávöxtum (síðan í síðustu viku) spínati og fleiru fyrir morgunverðinn.

Ég sé fyrir mér að búa til eitthvað gott kínóa salat í byrjun vikunnar sem dugar í hádegismat fyrir mig í nokkra daga.

 • Kínóa
 • pekan hnetur
 • perur
 • fetaostur
 • kál
 • rauð paprika

Til að standast áskorunina ætla ég að taka pening út úr hraðbanka en ekki nota debetkortið þannig að ég fari ekki yfir 25.000 kallinn (helst minna þar sem hinar tvær vikurnar voru yfir takmarkinu)

Gaman að heyra hvað margir hafa ákveðið að taka þetta í gegn hjá sér líka og skemmtilegt að heyra frá ykkur bæði í skilaboðum, á blogginu og facebook.

Gangi okkur öllum rosalega vel þessa þriðju viku 😉

Staðan eftir viku 2

Þá er vika 2 búin.  Skemmtileg vika,  ótrúlega var gaman að fara í leikhúsið og horfa á hana Línu og svo horfði hópurinn á Söngvakeppnina saman og það var aldeilis stuð.  Við erum 3 vinahjón sem eigum samtals 9 börn og þar af eru 7 undir 6 ára þannig að það er heldur betur partý þegar við hittumst og gerum eitthvað  saman  🙂  Ég hafði ekki neina séstaka skoðun á hvaða lag ætti að fara áfram, fannst nokkur nokkuð líkleg og er bara sátt við lagið sem fer, grípandi lag og flott stelpa sem syngur 🙂

En þá að vikunni,  Það kemur mér bara alltaf á óvart hvað matur er dýr og hvað peningurinn er fljótur að hverfa í matarinnkaup.   Ég var búin að búa til vikumatseðil og fór eftir honum að mestu leyti en ég fann það að ég lét ýmislegt vanta sem hefði gert vikuna betri, heilsulega séð.  Til dæmis sleppti ég því  að kaupa fisk í fiskisúpuna svo hún var að mestu grænmetissúpa með smá afgnags kjúkling.  Og sama með lambagúllasið á föstudaginn svo ég notaði bara hakkið sem ég fékk í síðustu viku og bauð upp á mexíkó mat í staðinn.  Á þriðjudagskvöldið var litli guttinn komin með kvef og hita og ég hélt að ég væri að fá flesnu og var komin undir sæng fyrir kvöldmat svo eiginmaðurinn var settur í að sjá um kvöldmatinn og þá varð grillaður kjúlli fyrir valinu í staðinn fyrir eggja máltíðina.  Hnetunúðlurnar voru hinsvegar á sínum stað á mánudagskvöldið og dugðu mér svo í hádegismat 2x.  Tíramísúkakan klikkar ekki, ég bjó hana til fyrir laugardaginn og nýt þess svo út vikuna að það hafi verið smá afgangur 😉

Batnandi fólki er best að lifa og okkur tókst að fara sjaldnar í búð en í síðustu viku, þ.e.a.s. engin búðarferð á miðvikudaginn.  JEY 🙂   Spurning hvort það takist að fara ekki í búð 2 daga í næstu viku 😉   Vandamálið er nefnilega það að ég er að “spara” svo mikið í búðinni að ég kaupi ekki nóg og neyðist því til þess að fara aftur daginn eftir, spurning hvort sé þá um raunverulegan sparnað að ræða!

 • Sunnudagur, Bónus = 8.905.-
 • Mánudagur, Bónus= 2.938.- (svona það sem gleymdist að kaupa á sunnudeginum)
 • Mánudagur, Fjarðarkaup =3.417.- ( Frosnir ávextir, 4 stórir pokar á tilboði)
 • Þriðjudagur, Krónan = 1.795.-
 • Þriðjudagur, Bónus = 3.581.-
 • Fimmtudagur, Bónus = 2.320.- (Varð að fara í búð því það var klósettpappírslaust og auðvitað læddist fleira með)
 • Föstudagur, Bónus= 7.090.- (matur fyrir helgina)
 • Laugardagur, Bónus = 1059.-
 • Samtals: 31.105.-

JAHÉRNA HÉR…. Ég fer að halda að þetta sé Mission Impossible 2015,   Ríkisstjórnarbudgetið er greinilega ekki í neinu samræmi við leiðbeiningar Landlæknisembættis !!!

Það er eins og í hverri viku vanti eitthvað “dýrt” þ.e.a.s. hluti sem kosta nokkur hundruð krónur, t.d. möndlusmjör, hnetusmjör, kókosolíu, ólífuolíu, krydd ofl.  maður býður alltaf eftir vikunni sem ekkert þarf að kaupa nema bara akkúrat það sem á að elda…kannski kemur hún einhvern daginn þessi vika 😉

Hvernig gengur ykkur að vera hagsýn ?

 

 

Vikuplan fyrir aðra viku febrúar

Vika tvö… þessi vika verður fljót að líða, hér á bæ eru börnin alveg að missa sig úr spenningi yfir því að vera á leið í leikhúsið á laugardaginn að horfa á Línu Langsokk, við skulum vona að vikan verði fljót að líða 😉

Mánudagur:  Grænmetisrétturinn að þessu sinni verður grænmeti, núðlur og hnetusósa.  Ég er með algert æði fyrir kelp núðlum en það versta er að þær fást ekki allstaðar og í hverfisbúðinni minni hafa þær hreinlega ekki verið til í nokkrar vikur, svo ég gæti þurft að reyna í öðrum búðum.

Núðlur

Þriðjudagur:  Ætli það verði ekki bara eggjabrauð á þriðjudaginn til að hafa smá fjölbreytni í þessum þriðjudags eggja máltíðum.  Börnin elska eggjabrauð og ég sker niður grænmeti í lengjum til að borða með.  Ég fæ mér oftast bara egg, sleppi brauðinu og bæti það upp með fullt af grænmeti.  Á þriðjudögum er oftast lítill tími í eldamennsku og allir búnir að borða heitan hádegismat svo ég held að það skaði engan á borða stundum svona einfalt á kvöldin.

 

Miðvikudagur: Linsubaunabolognese með spelt spaghettí.  Við erum 4 sem finnst þessi réttur alveg svakalega góður en ein segir alltaf  “Ohhhhhhh, af hverju notaðirðu ekki KJÖÖÖÖÖT” (með áherslu)!  Þar sem linsubaunirnar eru svo margfalt ódýrari en kjöt leyfi ég mér stundum að kaupa með þessu ferska basilíku og Piccolo tómata (sem við ELSKUM, hvernig er hægt að rækta svona góða tómata, ég bara spyr ???  )!

IMG_6584

Fimmtudagur: Karrý-kókos grænmetissúpa/ kjúklingasúpa og fiskisúpa eru alltaf mjög vinsælar.  Ætla að gera fiskisúpu í þetta skiptið því það er svo langt síðan ég hef haft fisk.

IMG_3862

Föstudagur:  Ég sá að það er er grjónagrautur hjá stelpunum mínum í hádeginu á föstudaginn svo ég er því að spá í því að gefa pizzunni frí þennan föstudaginn og skella í smá gúllas.  Eitthvað sem má setja í pott með grænmeti og láta malla á meðan ég geri helgar tiltektina.  Ég er ekki með neina uppskrift á vefnum en það er ein góð í uppskriftaheftinu sem ég skal setja hérna inn fyrir lok vikunnar.

Laugardagur:  Það verður stuð á laugardaginn,  Lína í leikhúsinu og svo má ekki gleyma úrslitunum í Söngvakeppni sjónvarpsins.  Maturinn á laugardaginn er ekki komin á hreint ennþá en það verður alveg örugglega eitthvað voða gott.

Spurning að skella í tíramísú eftirrétt

Tíramísú

Sunnudagur:  Mig langar að prófa nýjan rétt í þessari viku, hér er einn sem ég er búin að hafa augastað á lengi en aldrei eldað.  Það eru mörg matarblogg sem ég fylgist með og hef gaman af að prófa hitt og þetta, eitt af þeim er gulur rauður grænn og salt.  Miðað við lýsingarnar fæ ég bara strax vatn í munninn og hlakka til á sunnudaginn 🙂

 

Það er ekki víst að þetta gangi upp til að standast áskorunina og gæti þurft að endurskoða helgina eitthvað.

En við sjáum til, nú er bara að bretta upp ermarnar og búa til eitthvað úr því sem er til í skápunum heima.  Eiga ekki allir svona skápa og skúffur sem innihalda eitthvað sem fer að nálgast endalaokadagsetningu og bíður bara eftir því að vera notað?

Eftir vinnu í dag ætla ég að bretta upp ermarnar og baka hrökkbrauð og búa til Snickersköku svona til að eiga eitthvað gott í frystinum, þannig get ég sussað á allar langanir þegar ég fer í búð og hugsað bara “þú átt snicerksköku í frystinum” og þá kem ég í veg fyrir að það detti ótrúlega girnilegt lífrænt súkkulaðistykki eða eitthvað svona biscotti úr Hagkaup ofan í körfuna 😉