Rjómabollur með kókosrjóma

Þeir sem eru með mjólkuróþol eða borða ekki mjólkurvörur þurfa ekki að andvarpa yfir rjómabollunum.  Það er t.d. hægt að gera kasjúhneturjóma, möndlurjóma eða kókosrjóma.

IMG_3757

Ég bakaði nokkrar bollur í gær og setti í þær kókosrjóma.  Ég gerði 3 tegundir: vanillu, jarðaberja og súkkulaði.  Mjólkuróþolsskvísan var í sjöunda himni og pabbanum á heimilinu fannst kókosrjóminn meira að segja betri en sá venjulegi.

Hérna er uppskrift sem ég birti um daginn af kókosrjóma og þið getið kíkt á, þar eru fleiri myndir.

Grunnur:

  • 1 dós kókosmjólk,
  • 2 msk hlynsýróp/ eða önnur sæta t.d. akasíuhunang eða agavesýróp

Aðferð:

  1. Setjið dósina í frysti í ca 30 mín og notið svo hlutann sem hefur “harðnað”
  2. Þeytið saman ásamt hlynsýrópi eða annari sætu

Ég skipti þessu í 3 hluta og bætti eftirfarandi í:

Vanillurjómi: 1 tsk vanilludropar (mér finnst bestir úr heilsubúðum, með alvöru vanillubragði)

Jarðaberjarjómi:  2 tsk sykurlaus jarðaberjasulta

Súkkulaðirjómi: 2 tsk kakó, 1/2 tsk vanilludropar og 1 tsk hlynsýróp

Þegar búið er að hræra saman við bragðefninu þarf sennilega að skella rjómanum aftur í frysti í smástund áður en hann er settur á bollurnar.  Ég þurfti þess allavegna en reyndar var búið að hræra mjög mikið því allir voru svo spenntir yfir þessu og tilbúnir til að hjálpa til.

IMG_3750            IMG_3752

 

 

 

 

Súkkulaðirjóminn lítur nú reyndar pínu furðulega út á þessari mynd en um daginn bjó ég til súkkulaðirjóma og notaði á vöfflur og mmmmmm þvílík dásemd 🙂  Leyfi þeirri mynd að fljóta með þar sem hún sýnir súkkulaðirjómann í réttu ljósi.

IMG_3549

Bollurnar:

Ég keypti nokkrar bollur á föstudaginn og ætlaði að láta þær duga, 6 stk. handa fjölskyldunni þar sem ég get ekki sagt að ég hafi kunnað mér hóf í bolluáti síðustu áratugi og rjómabollur eitt það besta sem ég kemst í.  Þetta er annað árið sem bolludagurinn kemur aftan að mér, yfirleitt var ég búin að skoða dagatalið  og hlakka til í margar vikur.

En þar sem bollurnar sem ég keypti voru á bragðið eins og gamall skór, þrátt fyrir fögur loforð á pakkningunni bretti ég upp ermarnar í gærkvöldi og bakaði spelt-vatnsdeigsbollur.  Ég notaði uppskrift sem Inga næringarþerapisti gaf upp á Fésbókinni og þær heppnuðust svona vel. Hér kemur uppskriftin frá henni:

Hráefni:

  • 2 dl. vatn
  • 1 ½ matsk. extra virgin ólífuolía eða bragðlaus kókosolía
  • 100 gr. fínt (sigtað) spelt
  • 2 stór egg (3 lítil)

Aðferð:

  1. Sjóðið saman í potti, vatn og olíu.
  2. Takið pottinn af hitanum og hrærið speltinu út í (hrærið kröftuglega).
  3. Setjið pottinn aftur yfir hitann og hrærið deigið saman þar til það hefur fengið mjúka áferð.
  4. Kælið pottinn með deiginu í (t.d. í vatnsbaði).
  5. Hrærið eggin saman og bætið þeim smám saman út í kalt deigið og hrærið á meðan með handþeytara.
  6. Hrærið deigið vel eftir að eggjunum hefur verið bætt útí.
  7. Hitið ofninn í 200°.
  8. Setjið bökunarpappír á plötu, búið til ca 9 bollur úr deiginu og bakið í miðjum ofni.
  9. Opnið ekki ofnhurðina fyrstu 20 mín.
  10. Bakist í 30 mín. við 200°

Mínar voru pínu blautar að innan svo ég skar þær í tvennt, raðaði með sárið upp og bakaði í 5 mín í viðbót.

Að lokum:

Það skiptir máli hvernig kókosmjólk er keypt, ekki kaupa lite (þar sem það er bara búið að bæta meira vatni út í hana) og kaupið dós þar sem stendur hvað sé hlutfallslega mikið af kókoskjöti, ég hef reynt að frysta kókosmjólk þar sem stendur aðeins: coconutmilk and water (engin  hlutföll) og þá bara gerðist ekki neitt, engin rjómi úr þeirri dós !

Verði ykkur að góðu og njótið dagsins 🙂

Published by

Leave a Reply