Spergilkálssúpa

Þessi súpa kom mér vel á óvart.  Hún er virkilega bragðgóð ásamt því að vera fljótleg, ódýr og einföld.  Hún kemur úr bókinni “Bragð í baráttunni – Matur sem vinnur gegn krabbameini”  Ég set uppskriftina inn eins og ég gerði hana, þ.e.a.s. með lúku af ferskri steinselju en samkvæmt bókinni á að vera 1 tsk þurrkuð steinselja og 1 tsk dill!

IMG_3673

Hráefni:

  • 1 tsk kókosolía
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 tsk túrmerik
  • 1 haus spergilkál
  • 1 stór kartafla eða 2-3 litlar
  • 1 liter kjúklingasoð eða vatn og kjúklingakraftur
  • steinselja – 1 lúka
  • salt og pipar
  1. Hitið pott, bræðið olíuna, hitið laukinn og kryddið með túrmerik.
  2. Bætið kartöflunum út í pottinn ásamt stilkinum af spergilkálinu. (Skerið bara aðeins utan af honum og skerið í litla bita. Það er gott að skera kartöfluna í litla bita líka.)
  3. Bætið soðinu út í eða vatni og kjúklingakrafti.
  4. Sjóðið í 10 mínútur og bætið þá restinni af spergilkálinu út í og sjóðið við vægan hita í ca 7 mín.
  5.  Maukið súpuna með töfrasprota og bragðbætið með salti og pipar.

Þegar ég borðaði súpuna átti ég til soðið kínóa og bætti því út og þar með varð hún matarmeiri og próteinríkari.  Það passaði mjög vel með.  Einnig setti ég slatta af steinselju ofan á ásamt graskersfræjum.

Þegar ég eldaði þessa súpu bjóst ég ekki við að hún myndi vekja mikla lukku hjá fjölskyldunni.  Ég var semsagt með algjöra fordóma.  Af þremur börnum sagði eitt: nammi namm, annað sagði: Þetta er sko ekki brokkolísúpa hvað ertu að rugla mamma, og þriðja sagði: mér finnst hún ekkert rosalega góð ! Þannig að það voru bara nokkuð góð meðmæli 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

2 thoughts on “Spergilkálssúpa

Leave a Reply