Nammi námskeið í nóvember 2016

Tíminn flýgur og nóvember nálgast.  Það er mánuðurinn þegar nammi námskeiðin taka völdin.  Undanfarin ár hafa þessi námskeið verið mjög vinsæl en í ár verða aðeins þessi fjögur námskeið.

Það er alger snilld að geta búið til nammi sem er næringarríkt, sykurlítið eða sykurlaust og rugla þar af leiðandi ekkert í blóðsykrinum.  Nammi sem gefur okkur orku og kraft í amstri dagsins.   Við búum til allskonar nammi fyrir hin ýmsu tækifæri.  Súperhollt og líka aðeins minna hollt.  Nammi sem má fá sér í morgunmat en líka spari nammi.

Öll námskeiðin eru þannig að við höfum stöðvar og allir fá að gera sjálfir eða vinna í  4-5 manna hópum því það munar miklu að læra þannig heldur en að horfa á sýnikennslu.

 

11.nóv      Föstudagur kl. 17.00-20.00              Spíran, Garðheimum

Lífrænt rauðvínsglas fylgir með súkkulaðinu  –  UPPSELT

 

15.nóv      Þriðjudagur kl. 17.00-20.00             Spíran, Garðheimum

Börn á aldrinum 8-18 ára eru  velkomin með á þetta námskeið og greiða aðeins 1000 kr. – UPPSELT

 

18.nóv      Föstudagur kl. 17.00-20.00            Spíran, Garðheimum

Lífrænt rauðvínsglas fylgir með súkkulaðinu – UPPSELT

 

22.nóv      Þriðjudagur kl. 17.00-20.00             Spíran, Garðheimum – AUKANÁMSKEIÐ

Börn á aldrinum 8-18 ára eru  velkomin með á þetta námskeið og greiða aðeins 1000 kr

 

2.desember      Föstudagur kl. 17.00-20.00            Spíran, Garðheimum

Lífrænt rauðvínsglas fylgir með súkkulaðinu –  UPPSELT

 

6.desember    Þriðjudagur kl. 18.30-21.30                Matarbúr Kaju, Akranesi

 

Innifalið: 

 • Hressing við komu svo engin byrji svangur
 • Smakk af öllu sem við gerum
 • Það fara allir með nammipoka með sér heim
 • Rafbókin “Sætindi –  sem næra, hressa og bæta” fylgir með
 • Á föstudagsnámskeiðunum fylgir með glas af lífrænu rauðvíni

Verð: 8900 kr á öll námskeiðin nema 7900 kr á Akranesi hjá Matarbúri Kaju.

Athugið að mörg stéttafélög styrkja félagsmenn um allt að helming námskeiðisgjaldsins.

Allar bókanir á námskeið fara í gegnum heilsumamman@gmail.com

 

Það er verið að vinna í matseðlinum (lesist sem valkvíði.is og tilraunir.is).  Það verður eitthvað af fyrri námskeiðum en líka eitthvað nýtt 🙂

nammi námskeið

namminámskeið

Salthnetukaramelluæðikökubitar

Namminámskeið

Risaeðlusúkkulaði

Ofurkúlur sem eru góðar fyrir hjartað

Það er dásamlegt að hægt sé að búa til eitthvað gott sem er líka brjálæðislega hollt.  Það sem ég nota í þessari uppskrift er t.d. mjög gott fyrir hjartaheilsuna og þá eru það aðallega 2 hlutir sem spila þar stórt hlutverk.  Það eru valhnetur og hrákakó.

Ég hef verið að gera tilraunir með svo kallað hrá-kakó eða ofur-kakó.  Það er reyndar ekki alveg hrátt (fæst kakó sem ganga undir nafninu hrá-kakó eru alveg hrá, amk. samkvæmt minni rannsóknarvinnu). En samkvæmt framleiðanda er þetta kakóduft ríkara af flavenóíðum en annað kakóduft.  En flavanóíðar hafa góð áhrif á hjarta- og æðakerfið, hjartaæðarnar og blóðþrýsting.  Kakóduftið er virkilega bragðgott og ég skellti í ofur hollar súper dúper nammi kúlur.

Fyrir utan það að vera bráðhollar eru þær mjög fljótlegar, bragðgóðar og tilvaldar fyrir litlar hendur að fá að spreyta sig við kúlugerðina, en hver segir svo sem að það þurfi endilega vera kúlur, leyfið bara hugmyndafluginu að ráða lögun.

nammikúlur

Ofurkúlur sem eru góðar fyrir hjartað

Uppskriftin gerir 15 kúlur

Hráefni:

 • 2 dl döðlur
 • 1 dl pekan hnetur
 • 1/2 dl valhnetur smátt saxaðar
 • 1 1/2 msk kakó (ég notaði Super-Cacoa frá Aduna)
 • 1 msk brætt kakósmjör
 • 1 msk expresso kaffi
 • kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr

Aðferð:

 1. Setjið í döðlur og pekan hnetur í matvinnsluvél eða blandara.
 2. Bætið kakóduftinu við ásamt kakósmjörinu og vökvanum.
 3. Hnoðið valhnetunum saman við alveg  í lokin.
 4. Mótið kúlur og veltið upp úr kókos.
 5. Kælið og njótið 🙂

Þær geymast í ísskáp í nokkra mánuði en klárast yfirleitt mjög fljótt.

nammikúlur

Nokkur atriði sem þið getið nýtt ykkur:

 • Það er ótrúlega bragðgott að rista pekanhneturnar. Þá set ég þær á ofnskúffu í 10 mín við 150°c. Það er sniðugt að rista heilan poka og geyma þær ristaðar í loftþéttri krukku.  Þá þarf ég ekki að rista í hvert skipti.  Þær eru líka virkilega góðar svona ristaðar út á salöt.
 • Þegar þið þurfið bara að bræða 1 msk af kakósmjöri er sniðugt að setja einn kubb í glas og glasið ofan í skál með heitu vatni.  Ef þið gerið það bráðnar þetta á meðan þið eruð að blanda döðlunum og hnetunum saman.
 • Ég kaupi valhneturnar kurlaðar hjá Matarbúri Kaju svo ég þurfi ekki að saxa þær sjálf niður. Já svona getur maður nú verið latur stundum!
 • Það má alveg bæta við smátt söxuðum rúsínum eða goji berjum saman við kúlurnar.

nammikúlur

 Fyrir áhugsama er hér lesning um hjartað og hnetur og hér um ofur-kakóið.  Þeir sem eru ekki miklir lestrarhestar geta barið drifið sig beint inn í eldhús og farið að malla.  

Salthnetu- karamellu ÆÐI kökubitar

Þið trúið ekki hvað eru margar uppskriftir sem hafa safnast upp í sumar, súpur og salöt, meðlæti, kökur, drykkir.   Það hefur bara vantað tímann til að setjast niður og hamra þær inn.  Ég er bara búin að vera of upptekin við að það að njóta sumarsins og svo seinnihluta sumars í framkvæmdum.  En nú er skólinn byrjaður, sólardögum fer fækkandi, börnin farin að sofa á skynsamlegum tíma og þá verður vonandi tími til að koma blessuðum uppskriftunum á blað.  Þær eru svo margar en er ekki best að byrja á þeirri mest djúsí?

Salthnetukaramelluæðikökubitar

Þessir kökubitar urðu til eftir sumarfrí þegar ég var búin að hafa það aðeins of náðugt í með öllu tilheyrandi og þurfti aðeins að trappa sumarsukkið niður.  Kökubitar sem voru aðeins meira spennandi en kókoskúlur en töluvert hollari en önnur munaðarvara sem fékk að fljóta með í sumarfríinu.

Botn:

 • 3 dl pekan hnetur
 • 3 dl kókosmjöl
 • 3 dl döðlur
 • 3-5 msk kakó
 • 2 msk expresso kaffi (eða vatn)
 • örítið hreint vanilluduft og salt

Karamella:

 • 5 msk kókosolía
 • 5 msk kókosmjólk (hér má að sjálfsögðu líka nota rjóma)
 • 4 msk kókossykur
 • örlítið hreint vanilluduft og salt

Efsta lag:

 • 3-4 lúkur af salthnetum (magn eftir smekk)
 • ca. 20-30 g 70 % súkkulaði (ca. 2 lengur = 8 bitar)

Þetta lítur kannski út fyrir að vera vesen en trúið þið mér, það er alveg þess virði…fyrir utan að það lítur örugglega út fyrir að vera meira vesen en það er.

Salthnetukaramelluæðikökubitar

Aðferð:

Best er að byrja á karamellunni.  Hún þarf svolítið langan tíma til að verða stökk og þessvegna er ágætt að leyfa henni að malla á meðan við búum til botninn.  Setjið allt hráefni í pott og komið upp suðu.  Leyfið karamellunni að sjóða rólega og passið að hún brenni ekki við.  Kannski er sjóða ekki rétta orðið, malla hressilega er sennilega betra.  Hún þarf að verða mjög seig, þannig að þið skuluð bíða þangað til hún er orðin létt freyðandi.  Ef þið takið pottinn of snemma af verður hún klístruð og erfitt að skera bitana niður.  Þetta er yfirleitt að taka um 15 mínútur og því flott að standa við hliðina á pottinum þegar þið búið til botninn.

Næst gerum við botninn, best er að nota matvinnsluvél eða kraftmikinn blandara.  Byrjið á því að mala hneturnar, bætið kókosmjóli, kakó, salti og vanillu sfaman við.  Að lokum bætið svo döðlunum saman við smátt og smátt.  Ef matvinnsluvélin er ekki kraftmikil er góð hugmynd að nota fersku döðlurnar sem fást í pappakassa og eru geymdar í kæli frekar en þær þurrkuðu.

Finnið gott form sem þið ætlið að nota, klæðið það með bökunarpappír og fletjið deigið út. Deigið á ekki að vera  of blautt.  (Ég notaði þurrkaðar döðlur svo kannski er óþarfi að bæta við vatni/kaffi ef þið notið ferskar döðlur.)  Það á að vera þannig að það sé mjög auðvelt að móta það en á ekki að festast við hendurnar.

Hellið karamellunni yfir botninn.

Dreifið salthnetunum yfir karamelluna.

Saxið súkkulaðið niður og stráið yfir (best að gera það meðan karamellan er heit því þá bráðnar súkkulaðið).

Setjið mótið í frysti í u.þ.b. 30 mínútur.  Takið út og skerið í bita.

Geymið í frysti eða kæli og njótið í botn 🙂

 

Þetta er að sjálfsögðu nammi og skal borðast í hófi.  En málið er að maður verður bara þræl saddur og ekki hægt að borða endalaust af því.  Heilmikil næring er líka í hverjum bita sem gerir þetta nammi betri kost en það sem fæst í nammihillunum.

Góða helgi….ég er farin í berjamó 🙂

Salthnetukaramelluæðikökubitar

Karmellurís í nýjum útfærslum

Um daginn fór gömul nammiuppskrift á flug. Henni var deilt eins og vindurinn enda stendur hún svo sannarlega fyrir sínu þrátt fyrir að hafa verið lengi á vefnum.  Það var nokkkuð langt síðan ég hafði búið nammið til og ákvað því að gera smá tilraunir með annað hráefni en það sem var notað í upprunalegu uppskriftinni.  Eftir að ég byrjaði að nota vörurnar frá Kaju Organic hef ég nefnilega notað mikið Blásnu hýðishrísgrjónin á namminámskeiðunum og eins langaði mig að sjá hvort poppaða amarantið sem ég hef líka verið að nota á námskeiðunum gæti gengið í þessa uppskrift.

IMG_1822

 

Þetta var alvöru tilraunaverkefni:  3 mismunandi gerðir til að kanna hver kæmi best út.

IMG_1810

Hráefni:

 • 80 gr kókosolía
 • 40 gr kókospálmasykur
 • 170 gr döðlur
 • 2 dl blásin hrísgrjón, poppað amarant eða kornflex
 • 1 dl möndlur
 • 1 dl sesamfræ
 • smá salt
 • smá hreint vanilluduft
 • 100 g brætt 70 % súkkulaði eða heimatilbúið súkkulaði til að setja yfir í lokin.

 

Aðferð:

 1. Setjið döðlur, kókosolíu og sykur í pott og hitið saman við lágan hita.
 2. Maukið með töfrasprota.
 3. Hrærið öllu gúmmilaðinu saman við döðlumaukið og blandið öllu vel saman.
 4. Setjið í mót (klæddu bökunarpappír) og inn í frysti í smástund.
 5. Takið úr frysti og hellið brædda súkkulaðinu yfir og setjið inn í frysti aftur í smástund.
 6. Skerið í litla bita og geymið í ísskáp.

 

Hér sést hvernig poppað amarant lítur út, það er bæði hægt að poppa sjálfur eða kaupa poppað frá Kaju Organics, það fæst að minnsta kosti í Fjarðarkaup, en ég veit ekki með aðrar verslanir.

IMG_1813

 

Blásnu hýðisgrjónin frá Kaju, alger snilld í nammi gerðina

IMG_1814

Nammið með blásnu grjónunum

IMG_1822

Amrant útgáfan:  Ég var ekki nógu þolinmóð og hellti súkkulaðinu yfir áður en blandan fraus þannig að súkkulaðið lak í gegnum allt og settist á botninn en það kom bara mjög skemmtilega út 🙂

IMG_1831  IMG_1836

Niðurstaða þessara tilrauna var sú að það er bæði betra.  Bara mismunandi gott.  Ég gerði líka þriðju tilraunina og ákvað að sleppa sykrinum alveg og niðurstaðan var sú að bitarnir eru alveg nógu sætir án sykurs en áferðin verður allt önnur þegar sykurinn er notaður.  Bitarnir verða stökkir og tja það verður bara að segjast, margfalt betri, ég hefði eiginlega ekki trúað því að það yrði svona mikill munar á ekki meira magni en þetta, var með 40 g í uppskriftinni.  Bitarnir sem voru með engum sykri urðu seigari og mýkri.

Þetta nammi verður klárlega gert nokkrum sinnum í sumar því ég ég lofað ykkur 🙂

Gangi ykkur vel að prófa ykkur áfram

 

Sjúklega góð súkkulaðiplata

Dökkt súkkulaði…er til eitthvað betra, ég bara spyr?

Ég hef notast nokkuð lengi við súkkulaðiuppskrift bæði heima og á namminámskeiðunum en mig langar oft í dekkra súkkulaði og svo er jú alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.  Oftast kaupi ég 70-85 % súkkulaði og finnst bara vanta allt súkkulaðibragð af því sem er ljósara.

Hér kemur mjög bragðgóð uppskrift af heimatilbúnu dökku súkkulaði sem ég hvet ykkur til að prófa.

heimagert súkkulaði

Hráefni:

 • 1,5 dl bráðið kakósmjör (bræðið við mjög lágan hita eða í vatnsbaði)
 • 1,5 dl kakó
 • 0,5-0,75 dl hlynsýróp
 • örlítið gott salt
 • örlítið vanilluduft
 • 1,5 dl gotterí ofan á plötuna eftir smekk, á myndunum er ég með goji ber, trönuber, mórber pekan hnetur og brasilíhnetur (aðrar góðar hugmyndir eru saxaðar möndlur, graskersfræ og kókosflögur)

Aðferð:

 1. Blandið súkkulaði hráefninu saman og leyfið blöndunni að kólna aðeins svo hún þykkni.
 2. Setjið blönduna í sílíkonmót eða hellið yfir bökunarpappír.
 3. Stráið yfir blönduna gotteríinu sem þið viljið nota.
 4. Stingið í ísskáp í ca. 30 mín eða í frysti í ca. 10 mín.
 5. Brjótið í litla (eða stóra) bita og setjið í skál og njótið í botn 🙂

 

Það er mjög þægilegt að nota sílíkonmót:

heimagert súkkulaði

Svo er bara að setja í fallega skál og njóta…..

heimatilbúið súkkulaði

Verði ykkur að góðu….

Súkkulaðihúðaðar hindberja-amaranth kúlur

Í síðustu viku póstaði ég uppskrift af poppuðum amaranth kúlum.  Þetta nammi er í algeru uppáhaldi hjá mér og hér kemur ein ný útfærsla.  Hér eru þessar kúlur komnar í konfektbúning.

 

IMG_0220

Hráefni:

 • 2,5 dl poppað amaranth
 • 8 vænar msk kasjúsmjör (Ég var með H-Berg)
 • 1-2 vænar msk hunang
 • 1 dl kurlaðar döðlur og fíkjur. (hægt að kurla í blandara eða saxa mjög smátt með hníf)
 • örlítið sjávarsalt
 • ½ tsk hreint vanilluduft
  Nokkrir dropar af hindberjabragðefni frá Natali (þið getið líka notað aðra dropa sem þið eigið og ykkur finnst góðir)
 • 100 g brætt dökkt súkkulaði

Aðferð:

 1. Blandið öllu í eina skál, hnoðið saman og búið til kúlur.
 2. Frystið í 10 mín.
 3. Bræðið súkkulaði og húðið kúlurnar.
 4. Ég skreytti þær með örlitlum bita af goji berjum svo þær myndu ekki ruglast saman við kramellukúlurnar.

 

Amaranth fæst bæði ópoppað og tilbúið poppað í Lifandi Markaði.  Og nýjustu fréttir eru þær að það er hægt að fá það ópoppað í Fjarðarkaup. 

 

IMG_0219

 

IMG_0220

Verði ykkur að góðu 🙂

Takk fyrir samfylgdina á árinu, hlakka til að vera með ykkur á næsta ári 🙂

Kveðja,

Oddrún